Mitt svæði

Heilbrigt samband við mat

pistlar May 26, 2021

Hvað þýðir það eiginlega að eiga í heilbrigðu sambandi við mat?  Við leggjum mikla áherslu á það í okkar starfi að styðja fólk í að byggja upp heilbrigt samband við mat en höfum rekið okkur á að margir eru ekki alveg að átta sig á hvað það í raun og veru þýðir. Ef ég á í heilbrigðu sambandi við mat borða ég þá alltaf næringarríkan og fjölbreyttan mat eða þýðir það jafnvel að maður spái ekkert í næringu?

Það er kannski ráð að byrja á því á að útlista hvað einkenni óheilbrigt samband við mat af því þannig getum við betur áttað okkur á hvað einkenni heilbrigt samband við mat. Eftirfarandi atriði eiga það sameiginlegt að teljast til þess að einkenna það að eiga í óheilbrigðu sambandi við mat (þó þetta sé alls ekki tæmandi listi):

 1. Þú upplifir samviskubit eftir máltíðir – sérstaklega ef máltíðin innhélt eitthvað ,,óhollt” eða þú borðaðir meira en þú ætlaðir þér.
 2. Þú forðast eða takmarkar verulega fæðu eða fæðutegundir sem taldar eru ,,óæskilegar” eða ,,óhollar”.
 3. Þú ert með lista af mætvælum (bannlista) sem þú ættir helst sem sjaldnast að fá þér af.
 4. Þú treystir frekar á öpp sem t.d. telja hitaeiningar eða matarplön (ytri stýring) í stað þess að treysta á líkama þinn.
 5. Þú hundsar skilaboð líkamans um svengd og seddu – og ert jafnvel komin alveg úr tengslum við þau boð.
 6. Þú átt langa sögu af megrunartilraunum og yoyo þyngd (þyngdarsveiflum).
 7. Þú upplifir streitu eða kvíða í tengslum við máltíðir og félagslegar aðstæður tengdum mat.
 8. Þú upplifir tímabil sem einkennast af ,,stjórnleysi” þegar kemur að mat.

Þú þarft alls ekki að tengja við öll ofangreind atriði til að samband þitt við mat flokkist sem óheilbrigt en það sem er kannski sterkasta vísbendingin fyrir því er það að upplifa sektarkennd, skömm, kvíða eða streitu í tengslum við mat og félagslegar aðstæður tengdum mat. Maður heyrir oft setningar á borð við ,,ég hef engan viljastyrk eða sjálfstjórn”, ,,ég er líklegast sykur eða matarfíkill” eða ,,ég get sko aldrei átt neitt gott í skápunum, mér er hreinlega ekki treystandi” frá einstaklingum sem eru að glíma við þetta óheilbrigða samband við mat.

En þegar við skiljum betur hvernig líkami og hugur virkar og hvernig samfélagslegu áhrifin spila inn í þessa jöfnu áttar maður sig alltaf betur á hvað þetta kemur skorti á sjálfsaga eða of litlum viljastyrk ekkert við. Þar að auki verður svo skiljanlegt af hverju þetta vandamál er eins algengt og raun ber vitni.

Skoðum fyrst líkamlega þáttinn. Í stuttu máli þá býr líkami okkar yfir mjög góðu varnarkerfi þegar kemur að því að fá ekki nægan mat (eiginleiki sem við erfðum frá okkar forfeðrum, því þeir sem gátu lifað af fæðuskort voru líklegri til að komast af – semsagt mjög mikilvægt fyrr á tíðum!). Það sem m.a. gerist er að líkaminn hægir á brennslukerfinu, hugsanir um mat ágerast, svengdarhormón og önnur taugaboðefni sem kalla á mat aukast í líkamanum sem oft endar með,,stjórnleysi” en er í raun bara fullkomlega eðlilegt líffræðilegt viðbragð líkamans við of lítilli fæðu.

Næst skulum við skoða sálræna þáttinn, sem ekki síður hefur áhrif á þetta mynstur. Tökum sem dæmi áhrif þess að banna sér ákveðin matvæli sem okkur annars þykja góð en þá getur kviknað á hinum svokallaða ,,fokk it” hugsunarhætti og “síðustu kvöldmáltíðar” áhrifum. En þau lýsa sér þannig að fyrst þú varst hvort sem er búin að “svindla” þá geturðu allt eins klárað pakkann af namminu og sleppt æfingunni sem þú ætlaðir á af því það er hvort eð er búið að eyðileggja daginn og þú “byrjar bara aftur á morgun”. Í þessum aðstæðum eigum við það til að borða mjög hratt, þannig að við njótum ekki bragðsins, borðum umfram þægilega seddu og upplifum líklegast sektarkennd eða skömm í kjölfarið.

 Áhrifin frá umhverfinu okkar eða samfélagslegu áhrifin spila einnig stórt hlutverk í þessari þróun. En skilaboðin í gegnum tíðina hafa verið á þann hátt að okkur hefur stöðugt verið sagt að borða minna með það að markmiði að léttast eða koma í veg fyrir að þyngjast og skilaboðin hafa einnig verið ansi sterk um að við þurfum að léttast eða vera í ákveðinni þyngd til að verða heilbrigð og hamingjusöm. En þetta eru skilaboð sem koma frá hinni allt umlykjandi megrunarmenningu sem stöðugt selur okkur þessa hugmynd. Á sama tíma erum við í umhverfi sem er stútfullt af lokkandi mat og matarauglýsingum. Ansi þversagnakennt ef þú spyrð mig!

Og til að skilja það enn betur af hverju margir þróa með sér óheilbrigt samband við mat er gott að pæla aðeins í því hvað við borðum í raun og veru af mörgum ástæðum öðrum en bara svengd. Frá upphafi mannskyns hefur matur t.d. verið notaður til að dýpka tengsl okkar við annað fólk, þegar við fögnum eða syrgjum, þegar við erum leið eða þegar okkur leiðist og stundum borðum við mat hreinlega bara af því að hann er fyrir framan okkur. Það er gott að átta sig á að þetta mun alltaf verða partur af okkar mannlegu tilvist og þegar við setjum okkur þá kröfu að ætla aldei að gera það aftur heldur fara eftir stífum reglum eða matarplani að þá getur það boðið hættunni heim. Það er nefnilega mjög  óraunhæf krafa að ætla sér aldrei aftur að nota mat á annann hátt en bara sem bensín á bílinn og á sama tíma er mikilvægt að spá í hinn pólinn líka - ef matur er orðið okkar eina bjargráð til að tækla erfiðar tilfinningar eða ef við borðum mjög oft án þess að vera svöng að þá gæti verið komin tími til að bæta í verkfærakistuna sína.

Það er því kannski ekki að undra að mörg okkar þróum við  með okkur óheilbrigt samband við mat. Og eftir því sem megrunarkúrarnir (hvaða nafni sem þeir heita) verða fleiri aukast einnig líkurnar á því að við missum tengslin við okkar innri svengdar- og sedduboð og hættum að treysta okkur í kringum mat. Í rauninni er svo mikilvægt að minna sig á að heilbrigt samband við mat er jafn mikilvægt, þegar kemur að heilsunni okkar, og mataræðið sjálft!

En góðu fréttirnar eru að það er aldrei of seint að byggja upp heilbrigt samband við mat og þá er einmitt komið að máli málanna… að skoða hvað það er sem einkenni heilbrigt samband við mat.

En það hlýtur þá að vera nokkurs konar andstæða við óheilbrigt samband. Og ef við útlistum það eins og hér að ofan varðandi óheilbrigða sambandið að þá myndu eftirfarandi atriði einkenna það:

 1. Þú gefur þér ótakmarkað leyfi fyrir að borða allan þann mat sem þú þarft, þér þykir góður og þér líður vel af (sem er yfirleitt fjölbreytni í fæðuvali, því líkamanum líður ekki vel ef hann fær einhæfa fæðu).
 2. Þú upplifir ekki samviskubit eða skömm í kjölfarið af máltíðum.
 3. Það er engin fæða á bannlista.
 4. Þú treystir á eigin líkama til að segja þér hvenær, hvað, hversu mikið og oft þú þart að borða.
 5. Þú ert í góðum tengslum við svengdar og sedduboð.
 6. Þú áttar þig á að það er ekki til neitt sem heitir fullkomið mataræði og leyfir dagsformi og dagskrá að fá rými.
 7. Þú áttar þig á að stundum þarf að skipuleggja sig að einhverju leyti til að eiga til staðar mat sem þér líður vel af og getur þér orku.
 8. Þú ert sveigjanleg/ ur þegar kemur að mat.

Í stuttu máli er manneskja með eðlilegar fæðuvenjur sveigjanleg og afslöppuð þegar kemur að mat. Fæðuvenjur hennar fara eftir dagskrá og dagsformi, svengd og seddu og aðgengi hennar að mat hverju sinni. Hún upplifir ekki samviskubit eða skömm eftir máltíðir þrátt fyrir að borða stundum umfram þægilega seddu eða mat sem telst næringarsnauður.

Svo ef þú tengir við eitthvað af þessu og telur þig eiga í óheilbrigðu sambandi við mat og langar að gera það betra að þá er okkar fyrsta ráð að reyna sleppa tökum á megrunarmenningunni og byrja að æfa þig í að hlusta á hvað þinn eigin líkami er að biðja um. Ef þú átt þér langa sögu af óheilbrigðu sambandi við mat þá getur tekið tíma að komast í tengsl við þessi skilaboð aftur og því gott að byrja á því að temja sér reglulegt máltíðarmynstur og t.d. nota reminder í símanum fyrst um sinn til að minna sig á að borða. En reglulegt máltíðarmynstur getur einmitt stutt okkur við það að tengjast þessum boðum aftur. Einnig er mikilvægt að máltíðirnar séu vel samsettar, uppfylli þörfina okkar fyrir ánægju ásamt því að við temjum okkur að vera meira í núvitund þegar við borðum.

Fyrir ykkur sem eruð að tengja núna langar mig að ítreka: það er aldrei of seint að byrja að byggja upp heilbrigt samband við mat, það skiptir ekki máli hvar þú ert stödd í dag!

Ef þú vilt okkar aðstoð við að innleiða jákvæðar fæðuvenjur til frambúðar ásamt því að byggja upp heilbrigt samband við mat þá geturðu skráð þig í næsta hóp Næringarakademíunnar fyrir sumarfrí á sérstöku FORSKRÁNINGARTILBOÐI út 31. maí. Hópurinn byrjarr 6. júní. ATH! Að þegar þú skráir þig nælirðu þér í tvo kaupauka í leiðinni. Þú smellir á hlekkinn hér til hliðar til að lesa meira ➡️ >>>Lesa meira<<<

Þangað til næst,